Ferill 910. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1355  —  910. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um sorgarleyfi (stuðningur við kjarasamninga).

Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.



I. KAFLI

Breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020.

1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 1. mgr. 24. gr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi aldrei nema hærri fjárhæð en 700.000 kr. vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. apríl 2024 til og með 31. desember 2024.

II. KAFLI

Breyting á lögum um sorgarleyfi, nr. 77/2022.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 1. mgr. 16. gr. skal mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi aldrei nema hærri fjárhæð en 700.000 kr. vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts frá og með 1. apríl 2024 til og með 31. desember 2024.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var samið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í kjölfar þess að 7. mars 2024 voru lagðar fram sameiginlegar aðgerðir ríkisstjórnar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára. Ein af þeim aðgerðum sem um ræðir er hækkun á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í þremur áföngum, eða úr 600.000 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 900.000. kr. á mánuði.
    Mikilvægt þykir að fjárhæðir á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, og laga um sorgarleyfi, nr. 77/2022, séu þær sömu á hverjum tíma þannig að foreldrar sem verða fyrir barnsmissi á þeim tíma sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs verði ekki fyrir tekjufalli við það að fá greiðslur í sorgarleyfi eftir barnsmissinn í stað greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í ljósi þess þykir jafnframt mikilvægt að í frumvarpi þessu verði hámarksgreiðsla á mánuði til foreldra sem nýta rétt sinn til sorgarleyfis hækkuð til samræmis við fyrirhugaða hækkun á hámarksgreiðslu á mánuði úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Í 54. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, er kveðið á um að fjárhæðir greiðslna til foreldris úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslna fæðingarstyrks skuli koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Jafnframt er kveðið á um að þrátt fyrir framangreint sé ráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta fjárhæðunum til hækkunar um hver áramót ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga. Þá er kveðið á um að komi til breytinga á fjárhæðum, sbr. framangreint, skuli ráðherra setja reglugerð þar sem fjárhæðunum er breytt. Sambærilegt ákvæði má finna í 33. gr. laga um sorgarleyfi, nr. 77/2022.
    Í fyrrnefndum aðgerðum ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga á vinnumarkaði, sem lagðar voru fram 7. mars 2024, er gert ráð fyrir að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði hækki í fyrsta áfanga úr 600.000 kr. á mánuði í 700.000 kr. á mánuði og að hækkunin skuli gilda frá og með 1. apríl 2024 til og með 31. desember 2024. Þar sem um er að ræða hækkun sem tekur ekki gildi um áramót er talið nauðsynlegt að leggja fram frumvarp þar sem kveðið verði á um fyrrnefnda hækkun í ljósi þess að í 54. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um að heimilt sé að breyta fjárhæðum til hækkunar um hver áramót. Hið sama á við í tengslum við hækkun á greiðslum til foreldra sem nýta sér rétt sinn til greiðslna á grundvelli laga um sorgarleyfi.
    Gert er ráð fyrir að breyting á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur annars vegar á árinu 2025 og hins vegar á árinu 2026 verði gerð með reglugerð á grundvelli 54. gr. laganna. Jafnframt er gert ráð fyrir að hámarksgreiðslum á grundvelli laga um sorgarleyfi til foreldra sem verða fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturláti á árunum 2025 annars vegar og 2026 hins vegar verði breytt með reglugerð á grundvelli 33. gr. laganna.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Í 1. mgr. 24. gr. gildandi laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli aldrei nema hærri fjárhæð en 600.000 kr. Í frumvarpinu er lagt til að við lög um fæðingar- og foreldraorlof verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að þrátt fyrir fyrrnefnda fjárhæð í 1. mgr. 24. gr. laganna skuli mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi aldrei nema hærri fjárhæð en 700.000 kr. vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. apríl 2024 til og með 31. desember 2024.
    Í 1. mgr. 16. gr. sorgarleyfi, nr. 77/2022, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi skuli aldrei nema hærri fjárhæð en 600.000 kr. Í frumvarpinu er lagt til að við lög um sorgarleyfi verði bætt nýju ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið verði á um að þrátt fyrir fyrrnefnda fjárhæð í 1. mgr. 16. gr. laganna skuli mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi aldrei nema hærri fjárhæð en 700.000 kr. vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts frá og með 1. apríl 2024 til og með 31. desember 2024.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Efni frumvarps þessa gefur ekki sérstakt tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Í ljósi þess að frumvarp þetta var samið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu í kjölfar þess að 7. mars 2024 lögðu ríkisstjórn Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga fram sameiginlegar aðgerðir til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára var frumvarpið ekki kynnt öðrum ráðuneytum í hefðbundnu innra samráði milli ráðuneyta. Þá var frumvarpið ekki kynnt í opnu umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is þar sem efni þess er hluti af aðgerðum ríkisstjórnar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við gerð kjarasamninga á vinnumarkaði á almennum vinnumarkaði í mars 2024.

6. Mat á áhrifum.
    Fram kemur í því skjali þar sem aðgerðir ríkisstjórnar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga eru kynntar að aðgerðunum sé ætlað að styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila sem koma að gerð kjarasamninga um að leggja grundvöll að vaxandi velsæld með auknum kaupmætti og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Þá kemur fram að til að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að því að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga verði hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofsjóði hækkaðar í þremur áföngum eða úr 600.000 kr. á mánuði í 900.000 kr. á mánuði.
    Tölulegar upplýsingar frá Vinnumálastofnun benda til þess að síðustu 12 ár hafi orðið hægfara breyting á hlutfallslegum fjölda umsókna feðra um greiðslur í fæðingarorlofi miðað við fjölda umsókna mæðra. Á árunum 2011–2015 stóð þetta hlutfall nokkuð í stað í um 81%. Í október 2016 hækkuðu mánaðarlegar hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi úr 370.000 kr. á mánuði í 500.000 kr. á mánuði. Gögn benda til þess að í kjölfarið hafi hlutfallslegur fjöldi umsókna feðra miðað við fjölda umsókna mæðra aukist en hlutfallið fór í 86,5% vegna fæðingarársins 2017. Hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi hækkuðu aftur fæðingarárið 2019 í 600.000 kr. á mánuði og í kjölfarið fór umrætt hlutfall í 88% vegna fæðingarársins 2019. Hlutfallið breyttist ekki mikið milli áranna 2019 og 2020 en árið 2020 fór hlutfall umsókna feðra miðað við fjölda umsókna mæðra í 90%. Í ljósi framangreinds má ætla að í því skyni að viðhalda öflugu fæðingarorlofskerfi sé mikilvægt að mánaðarlegar hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs haldi í við launaþróun í landinu þannig að foreldrar sjái hag í að fullnýta fæðingarorlofsréttinn og takmarki ekki nýtinguna vegna of mikillar röskunar á tekjum meðan á fæðingarorlofi stendur.
    Af framansögðu má ætla að breytingar á mánaðarlegum hámarksgreiðslum Fæðingarorlofssjóðs til foreldra sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs muni almennt leiða til þess að fleiri feður en áður sjái sér fært að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Ætla má að slík þróun sé til þess fallin að auka líkur á því að framangreind markmið laganna nái fram að ganga og hafi þannig áhrif á þær fjölskyldur sem í hlut eiga hverju sinni.
    Áætlað er að kostnaður við hækkun á mánaðarlegri greiðslu Fæðingarorlofssjóðs úr 600.000 kr. í 700.000 kr. til foreldra í fæðingarorlofi vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. apríl 2024 til og með 31. desember 2024 verði um 400 millj. kr.
    Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun nýttu 57 einstaklingar rétt sinn til sorgarleyfis á árinu 2023, þar af voru 26 feður og 31 móðir. Sjö einstaklingar af þessum 57 fengu 600.000 kr. hámarksgreiðslu á mánuði, þar af þrír feður og fjórar mæður. Í ljósi framangreinds er gert ráð fyrir að sú breyting sem lagt er til með frumvarpi þessu að verði á hámarksgreiðslum til foreldra sem nýta rétt sinn til sorgarleyfis vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts frá og með 1. apríl 2024 til og með 31. desember 2024 hafi í för með sér óverulegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, eða um 1,5 millj. kr. miðað við útgjöld á árinu 2023. Gert er ráð fyrir að framangreindur viðbótarkostnaður rúmist innan núverandi fjárheimilda í fjárlögum.